Árið 2021 voru 15 ár frá stofnun Félags sjálfstætt starfandi fræðimanna á Norðurlandi og sjö ár frá stofnun AkureyrarAkademíunnar. Í tilefni af þessum tímamótum kom út skýrsla á vegum Akademíunnar sem felur annars vegar í sér skrá yfir verkefni sem fólk hefur unnið að hjá félaginu og Akademíunni á þessu 15 ára tímabili og hins vegar yfir viðburði á sama tímabili.
Tilgangurinn með skýrslunni er upplýsa almenning og stjórnvöld um það mikla og fjölbreytta starf sem farið hefur fram undir merkjum félagsins og Akademíunnar.
Margrét Guðmundsdóttir sagnfræðingur hafði umsjón með skýrslugerðinni og ritaði inngang.
Skránum hefur verið komið fyrir í gagnagrunni á vefsíðu Akademíunnar sem hægt er fletta upp í með leitarorðum. Gagnagrunnurinn verður reglulega uppfærður með nýjum upplýsingum um verkefni og viðburði.
Á þessu 15 ára tímabili hafa tæplega 100 einstaklingar leigt sér vinnuaðstöðu hjá félaginu og Akademíunni, 59 konur og 38 karlar. Flestir eru námsmenn við innlenda og erlenda háskóla. Fyrir utan námsmenn hefur fjölbreyttur hópur vísinda-, fræði- og listamanna sem og frumkvöðla nýtt sér vinnuaðstöðuna um lengri eða skemmri tíma. Það eru tæplega 50 greinar eða svið sem akademónar hafa lagt stund á.
Á fjölmörgum viðburðum hefur verið teflt saman fólki úr ýmsum atvinnugreinum, fræðum, vísindum og listum. Vel yfir 250 einstaklingar hafa komið fram á þeim ríflegu 150 viðburðum sem félagið og Akademían hafa staðið fyrir á árunum 2006 til 2021. Lögð hefur verið áhersla á að virkja sem flesta heimamenn til þátttöku, bæði bæjarbúa og nærsveitarmenn. Fjölmargir gestir hafa einnig lagt leið sína norður á vegum félagins og Akademíunnar, bæði innlendir og erlendir.
Margrét Guðmundsdóttir. Sköpun akademóna. Verkefni og viðburðir 2006-2021. AkureyrarAkademían, Akureyri 2021. Sjá hér