Miðvikudaginn 11. september nk., kl. 12-13, flytja sagnfræðingarnir Hrafnkell Lárusson og Skafti Ingimarsson fyrirlestra á vegum AkureyrarAkademíunnar og Félagsvísindadeildar Háskólans á Akureyri. Yfirskrift fyrirlestra þeirra er „Félagastarf, lýðræðis- og stjórnmálaþróun á Íslandi 1875-1968“ en þeir munu fjalla um nýlegar rannsóknir sínar á þessu sviði. Fyrirlestrarnir fara fram í stofu M-102 í HA.
Í þessari rannsókn er kannað hvernig vöxtur félagastarfs og almennari þátttaka í því hafði áhrif á lýðræðisþróun á Íslandi á árabilinu 1874–1915. Áhersla er lögð á virkni og þátttöku almennings í starfi félaga og félagshreyfinga sem studdu með beinum eða óbeinum hætti við eflingu og þróun lýðræðis. Reynt að varpa ljósi á afstöðu almennings gagnvart lýðræðisstofnunum og kjörnum fulltrúum en einnig er tekið tillit til annarra áhrifaþátta, s.s. þróunar menntunar á tímabilinu, búsetu- og atvinnubreytinga og valdaafstæðna í nærsamfélögum. Í hnotskurn er þetta félags-, menningar- og stjórnmálasöguleg rannsókn á áhrifum almennings á lýðræðisþróun á Íslandi á tímabilinu 1874–1915. Rannsóknin sýnir fram á afgerandi þátt félagastarfs við að breyta samfélagsgerð, stjórnmálum og menningu, þ.e. að þróa íslenskt samfélag frá sveitasamfélagi 19. aldar til nútímasamfélags 20. aldar.
Þessi rannsókn snýst um upphaf og þróun kommúnistahreyfingarinnar á Íslandi á tímabilinu 1918–1968. Í henni er saga hreyfingarinnar skoðuð í ljósi íslenskrar þjóðfélagsþróunar og alþjóðlegra hugmyndastrauma. Kannað er úr hvaða jarðvegi hreyfingin var sprottin, skoðað hverjir studdu hana og hvers vegna og sýnt hvernig fámennum hópi íslenskra kommúnista tókst að gera flokk sinn að fjöldahreyfingu, ólíkt því sem gerðist í flestum nágrannalöndum. Loks er valdabaráttan innan Kommúnistaflokks Íslands (1930–1938) og Sameiningarflokks alþýðu – Sósíalistaflokksins (1938–1968) skoðuð og starfsemi flokksdeilda og sósíalistafélaga víðs vegar um landið könnuð með hliðsjón af viðvarandi togstreitu milli Reykjavíkur og landsbyggðarinnar.
Um fyrirlesarana:
Hrafnkell Lárusson (f. 1977) er Austfirðingur og starfaði um rúmlega fimm ára skeið sem forstöðumaður Héraðsskjalasafns Austfirðinga og síðar sem verkefnisstjóri hjá Stofnun rannsóknarsetra Háskóla Íslands, með aðsetur á Egilsstöðum. Hann varði doktorsritgerð sína í sagnfræði við Háskóla Íslands vorið 2021 og nefndist doktorsverkefnið „Lýðræði í mótun: félagastarf, fjölmiðlun og þátttaka almennings 1874-1915.“ Endurskoðuð útgáfa ritgerðarinnar kom út hjá Sögufélagi 2024. Hrafnkell er nú nýdoktor við rannsóknarverkefnið „Hverjir völdu fulltrúa fólksins?“ sem fjallar um þátttöku í alþingiskosningum á landshöfðingjatímanum (1874-1903). Þar er sérstök áhersla lögð á að kanna félagsleg tengsl og félagslegan bakgrunn bæði kjósenda og frambjóðenda.
Skafti Ingimarsson (f. 1971) lauk BA-prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 2004, prófi í uppeldis- og kennslufræði við Háskólann á Akureyri sama ár, M.Litt-prófi í sagnfræði við University of St Andrews í Skotlandi árið 2007 og lauk Ph.D-prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 2018 með ritgerðinni Íslenskir kommúnistar og sósíalistar: Flokksstarf, félagsgerð og stjórnmálabarátta 1918-1968. Endurskoðuð útgáfa ritgerðarinnar kom út hjá Sögufélagi 2024 með titlinum Nú blakta rauðir fánar. Skafti hefur verið stundakennari við Deild heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði við Háskóla Íslands og við Hug- og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri. Hann hefur einnig verið gestafræðimaður við Kaupmannahafnarháskóla og Oslóarháskóla. Skafti er nú nýdoktor í sagnfræði við Háskóla Íslands en rannsóknir hans beinast að stjórnmála- og félagssögu 20. aldar og umhverfissögu.
Öll velkomin!