Í gær var haldið upp á 15 ára afmæli AkureyrarAkademíunnar í húsakynnum hennar í Sunnuhlíð. Hátíðarávarp dagsins flutti Steinunn Arnars Ólafsdóttir, formaður akademíunnar, og Margrét Guðmundsdóttir sagnfræðingur rakti stuttlega sögu félagsins. Einnig steig á stokk Vilhjálmur Bragason, Villi vandræðaskáld, og skemmti gestum í tali og tónum.
AkureyrarAkademían er samfélag fólks á Norðurlandi sem stundar háskólanám og sinnir fræði- og ritstörfum. Í húsnæði akademíunnar stendur einstaklingum til boða að leigja vinnuaðstöðu og taka þátt í lifandi og þverfaglegu fræðasamfélagi. AkureyrarAkademían stendur reglulega fyrir fundum, fyrirlestrum, málþingum og öðrum viðburðum, þar sem félagar og gestir miðla af þekkingu sinni og sköpunargleði með það að markmiði að skapa brú milli fræða og samfélags.
Í tilefni afmælisins skrifaði Aðalheiður Steingrímsdóttir, framkvæmdastjóri AkureyrarAkademíunnar, greinina Lifandi og fjölbreytt samfélag í 15 ár sem lesa má á vef Vikublaðsins.