Þögn hefur marvíslega merkingu og notagildi, allt eftir samhengi og áhrifum. Í fræðum tengdum skipulagsheildum er þögn þó almennt skilgreind sem vandamál, lamandi ástand sem kemur í veg fyrir að nauðsynlegum upplýsingum er miðlað eða að horfst sé í augu við aðsteðjandi ógnir. Í listastofnunum, svo sem eins og listasöfnum, leikhúsum og tónleikasölum, er þögnin afturámóti hin mótasagnakennda forsenda miðlunar og túlkunar. Hún skapar rými fyrir hlustun og umhugsun og tengist kjarna starfseminnar sem er að skapa umgjörð fyrir verkið eða gripinn sem er miðlægur í öllu starfi.
Í erindinu er gerð grein fyrir rannsókn á hlutverki þagnar í störfum tengdum menningu, sköpun og listum. Stuðst er við vettvangsheimsóknir, viðtöl og hlutagreiningu, en aðferðafræðileg nálgun fagurfræði skipulagsheilda er lögð til grundvallar. Í samræmi við þá hefð er markmiðið með rannsókninni að niðurstöður séu ekki eingöngu greinandi á hinn lokaða veruleika skipulagsheildar heldur hafi víðari skírskotun og veki spurningar um stjórnunarþekkingu. Hugtakið sjálft, þögnin, afstaða hennar og sjónarhorn, er þannig leið til þess að vekja spurningar um hið gefna.
Njörður Sigurjónsson er dósent í menningarstjórnun við Háskólann á Bifröst en áður starfaði hann meðal annars sem sýningarstjóri við Íslensku óperuna, framkvæmdastjóri Bókmenntasjóðs og markaðsstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Njörður er með B.A. próf í heimspeki og M.Sc. í alþjóðaviðskiptum frá Háskóla Íslands, auk doktorsprófs í menningarstefnu og -stjórnun (Cultural Policy and Management) frá City University, London.
Viðburðurinn verður í Deiglunni, fimmtudaginn 18. febrúar kl. 17:00.
Allir velkomnir - ávextir á borðum.