Hátíð drekans við Skjálfandafljót

Fimmtudaginn 18. júlí kl.14:00 verður Hátíð drekans við Skjálfandafljót haldin í fallegri laut sem nefnist Kvenfélagsbollinn við Goðafoss. Huldustígur og Konfúsíusarstofnunin Norðurljós við Háskóla Íslands standa að viðburðinum í samstarfi við fleiri aðila. Markmiðið er að tengja saman íslenskan og kínverskan þjóðasagnaarf um dreka og fljót og heiðra náttúru og menningararf.
 
Nú stendur ár drekans yfir skv. kínversku almanaki og því tilvalið að gefa drekanum gaum. Í bæði íslenskri og kínverskri menningu eru drekar sterklega tengdir vatni. Drekinn er einn af okkar alkunnu landvættum á skjaldarmerki lýðveldisins Íslands. Vernd hans er víða að finna við fljót og fossa þessa lands. 
 
Helga A. Erlingsdóttir, sjálfstætt starfandi fræðikona, mun fræða gesti um sögu staðarins og tengingu íbúa við fljótið og Goðafoss í gegnum tíðina. Við bjóðum gestum, og eru börn sérstaklega velkomin, að taka þátt í að mála dreka undir handleiðslu listakonunnar Rakelar Hinriksdóttur. Sögð verður kínversk þjóðsaga um dreka og boðið verður upp á kínverskt te.
 
AkureyrarAkademían og Þingeyjarsveit veita verkefninu styrki sem nýtast við gerð drekalistaverksins. 
 
Viðburðurinn er gjaldfrjáls - verið hjartanlega velkomin.
Best er að leggja bílum og ganga frá bílastæði við Goðafoss, vestan fljóts.