Í janúar 2018 stóðu AkureyrarAkademían, Jafnréttisstofa og JCI Sproti fyrir fræðslunni Konur upp á dekk! Hagnýt fræðsla og samræðuþing um stjórnmál sem haldið var á Akureyri. Markmið þess var fyrst og fremst að auka hlut kvenna í bæjarstjórnarkosningunum sem fram fóru í maí sl. Verkefnið heppnaðist svo vel að full ástæða þótti til að þróa það enn frekar. Allir samstarfsaðilarnir, ásamt Starfsgreinasambandinu, ákváðu því í sameiningu að sækja um styrk í Jafnréttissjóð Íslands til að standa fyrir sambærilegum námskeiðum á sex stöðum á landinu sem væru sérsniðin að konum í verkalýðshreyfingunni.
Meginmarkmið námskeiðanna er að stuðla að aukinni þátttöku kvenna bæði innan og í forystu verkalýðshreyfingarinnar en mjög hallar á konur á þessu sviði. Það er mikið ánægjuefni að verkefnið er styrkt með þessum hætti en Jafnréttissjóður Íslands sem var stofnaður árið 2015 styður í ár fjölmörg spennandi verkefni sem munu stuðla að aukinni þekkingu og framþróun þegar kemur að jafnrétti kynjanna í okkar samfélagi.
Við hlökkum til að hefja vinnuna og hitta kröftugar konur um land allt!