AkureyrarAkademían varð 15 ára á síðasta ári. Frá upphafi hefur markmið hennar m.a. verið að starfrækja fræða- og menningarsetur á Akureyri til að bjóða háskólanemum og þeim sem fást við fræða- og ritstörf upp á aðstöðu til að vinna að hugðarefnum sínum. Akademían er þverfaglegt samfélag fólks sem vinnur að eigin verkefnum en hittist á kaffistofunni til að spjalla og snæða saman hádegismat og gerir sér reglulega glaðan dag. Alveg eins og aðrir vinnustaðir. Það er mikill kostur.
Ég er svo heppin að vera ein af þeim tæplega 100 einstaklingum sem hafa í gegnum tíðina nýtt sér aðstöðu í Akademíunni, eins og hún er yfirleitt kölluð í daglegu tali. Það var skömmu eftir áramótin 2016-2017 sem ég ákvað að fara í rannsóknartengt doktorsnám í heilbrigðisvísindum við Háskóla Íslands. Rannsóknin mín snerist um einstaklinga sem hafa fengið heilaslag og var tvíþætt. Annars vegar var send út könnun á landsvísu til einstaklinga sem búa í heimahúsum eftir að hafa fengið heilaslag 1-2 árum áður og m.a. spurt um færni þeirra og aðstæður. Hins vegar tók ég þátt í norrænu þróunarverkefni sem gekk út á að þróa og prófa tæknilausnir til að auka líkamlega virkni einstaklinga eftir heilaslag. Gagnaöflun fór að mestu fram sunnan heiða en þegar heim var komið þurfti ég að setjast niður, greina gögnin og skrifa greinar og lokaritgerð. Ekki var það líklegt til árangurs að vinna að þessu heima því auðvelt var að grípa í heimilisstörfin eða gera eitthvað allt annað en að sinna náminu. Mér fannst ég því hafa dottið í lukkupottinn þegar ég gekk inn í Akademíuna í fyrsta sinn, nýbyrjuð í doktorsnámi við háskóla í höfuðborginni en ég búsett á Akureyri. Það var mjög vel tekið á móti mér í Akademíunni. Blessunarlega var laust borð við einn gluggann, mér finnst gott að horfa út þegar ég er að hugsa. Fjölmörgum klukkustundum varði ég í Akademíunni í pælingar, skrif og spjall, á hvaða tíma sólarhringsins sem mér hentaði. Samtíma mér voru innlendir og erlendir einstaklingar í háskólanámi á öllum stigum og fólk sem vann að kennslu, rannsóknum og eigin ritverkum. Í júní 2021 varði ég doktorsritgerð mína, Færni og aðstæður einstaklinga eftir heilaslag og ActivABLES fyrir heimaæfingar og daglega hreyfingu, sem skrifuð var í að stærstum hluta í AkureyrarAkademíunni og vil ég nota tækifærið hér og þakka samferðarfólki mínu þar fyrir stuðning og samveru.
Í nútímasamfélagi þar sem sífellt meiri áhersla er lögð á nám og störf án staðsetningar er mikilvægt að hafa samastað til að sinna hugðarefnum sínum en jafnframt að vera í góðum félagsskap. Það er ómetanlegt fyrir mig (og kannski þig) að fara út úr húsi og á stað eins og AkureyrarAkademíuna til að hugsa, skrifa, hitta fólk og vera hluti af frjóu samfélagi.
Steinunn A. Ólafsdóttir er sjúkraþjálfari og lektor við námsbraut í sjúkraþjálfun við HÍ.