Skapti Hallgrímsson - skapti@akureyri.net 08.12.2021 kl. 09:30
Fjölbreytt fræða- og menningarsetur hefur verið starfrækt í AkureyrarAkademíunni (AkAk) síðasta hálfan annan áratug og auðgað mjög bæði menningu og mannlíf í samfélaginu, segir Margrét Guðmundsdóttir, sagnfræðingur og félagi í AkAk, sem nýverið tók saman skýrslu í tilefni þeirra tímamóta að 15 ár eru síðan akademían var stofnuð. Margrét segir augljóst að starfið hafi skilað góðum árangri og átt þátt í að styrkja búsetu og samfélag á svæðinu.
Um 100 manns hafa á þessum 15 árum haft aðstöðu til sköpunar og rannsókna í AkureyrarAkademíunni, sem fyrst var til húsa í gamla húsmæðraskólanum við Þórunnarstræti en er nú, eftir nokkurt flakk síðan flutt var úr Þórunnarstrætinu, í eigin húsnæði í verslunarmiðstöðinni Sunnuhlíð.
„Frá upphafi hefur markmið AkureyrarAkademíunnar verið að starfrækja fræða- og menningarsetur á Akureyri til að bjóða háskólanemum og þeim sem fást við fræða- og ritstörf upp á aðstöðu til að vinna að hugðarefnum sínum og að styðja við rannsóknir og fræði með því að miðla þekkingu út í samfélagið og stuðla að umræðum,“ segir Margrét við Akureyri.net. Hún segir það markmið sannarlega hafa náðst.
AkAk hefur staðið fyrir um 250 viðburðum að ýmsu tagi. „Við höfum ekki getað haldið neina viðburði síðasta árið vegna Covid en það er ótrúlega gaman hve dagskráin hefur verið fjölbreytt í gegnum árin og viðburðir margir og skemmtilegir,“ segir Margrét.
„Fyrst var aðalatriðið að útvega húsnæði en markmiðið var strax að ná til mjög breiðs hóps. Reykjavík er stór, ofboðslega margir fræði- og vísindamenn starfandi þar en við gerðum okkur grein fyrir því að við þyrftum að ná til fjölbreyttari hóps. Það er mismunandi hve vísindamenn og fræðimenn eiga gott með að tala við almenning, sumir háskólamenn vilja sitja í fílabeinsturni og tala bara við vísindamenn, helst í sínu eigin fagi. Mér finnst það veikleiki að vera alltaf í sömu hjólförunum, þótt það geti vissulega verið þægilegt. Ég fæ dæmis mínar bestu hugmyndir þegar ég hlusta á aðra en sagnfræðinga og við stefndum alltaf að því að fara þá leið að reyna að miðla fræðunum, niðurstöðum rannsókna og vísinda, til almennings, fólks úr margvíslegum störfum og mér finnst frábært hve vel hefur tekist til. Þúsundir hafa sótt suma viðburðanna okkar.“
Margrét nefnir sögusýningar, gönguferðir, ráðstefnur, málþing og alls kyns tónlistarviðburði. Segir í raun undravert hve fjölbreytnin hefur verið mikil. „Okkur hefur tekist mjög vel að tengja saman ólíka hópa; fræði- og vísindamenn, handverksfólk, listamenn af ýmsu tagi, bændur og matreiðslumenn, svo ég nefni dæmi; þetta finnst mér það dýrmætasta í starfinu. Þegar fólk úr ólíkum áttum kemur saman verður alltaf til mikil deigla, ný sjónarhorn koma fram og nýjar hugmyndir verða til.“
Margrét nefnir ýmis atriði í skýrslunni, m.a. þessi:
Sköpun akademóna og verkefni
Viðburðir á vegum AkAk