Fyrst voru haldin tvö inngangserindi. Margrét Guðmundsdóttir, sagnfræðingur, fjallaði um,15 ára rannsóknarsögu AkAk sem stuðlað hefur að uppbyggingu þekkingarsamfélags hér í bænum og á Norðurlandi. Eyjólfur Guðmundsson, rektor HA, ræddi um umhverfi og aðstöðu fyrir rannsóknir og fræðastarf á Akureyri en starfsemi HA gegnir þar lykilhlutverki.
Eftir erindin fóru fram almennar umræður um hvernig megi efla Akureyri sem eftirsóknarverðan kost fyrir vísinda- og fræðafólk til að koma hingað og starfa að sínum rannsóknum og hvað þurfi að gera til að búa í haginn fyrir öflugt vísindalíf hér í bænum.
Í umræðunum var samhljómur um að koma þyrfti vísindasamfélaginu hér í bænum betur á kortið til að fá fleira fólk hingað til að stunda sínar rannsóknir og fræðastörf.
Þessi fundur verður vonandi upptaktur að víðtækara samtali margra um að efla vísindasamfélagið hér norðan heiða. Við hjá AkAk höfum þar margt fram að færa og hlökkum til áframhaldandi samtals.