RÍFLEGA 150 VIÐBURÐIR Á VEGUM AKUREYRARAKADEMÍUNNAR Á 15 ÁRUM

29. október, 2021 - 15:55 Margrét Þóra Þórsdóttir mth@vikubladid.is

„Afmælið heppnaðist mjög vel, það komu hátt í 30 vinir og velunnarar AkureyrarAkademíunnar í heimsókn og skemmtu sér prýðilega,“ segir Aðalheiður Steingrímsdóttir framkvæmdastjóri en AkAk fagnaði 15 ára afmæli sínu í gær og efndi að því tilefni til samkomu í húsakynnum sínum í verslunarmiðstöðinni Sunnuhlíð 12.

Boðið var upp á léttar veitingar og dagskrá til heiðurs afmælisbarninu sem nú er orðið ungmenni. Steinunn A. Ólafsdóttir formaður stjórnar AkAk var með ávarp, Vilhjálmur B. Bragason Vandræðaskáld skemmti með söng og tónlist og Margrét Guðmundsdóttir sagnfræðingur kynnti skýrslu um verkefni og viðburði á vettvangi AkAk 2006 til 2021 sem hún tók saman.

Margrét tók skýrsluna saman í tilefni tímamótanna, en þar er að finna yfirlit yfir þau verkefni sem einstaklingar unnu að á þeim tíma sem þeir voru með vinnuaðstöðu hjá AkureyrarAkademíunni, frá stofnun Félags sjálfstætt starfandi fræðimanna á Norðurlandi árið 2006 til þessa dags.

Um er að ræða fjölbreytt safn verka, lokaritgerðir, rannsóknarskýrslur, tímaritsgreinar, kennsluefni og ýmis önnur ritverk. Einnig er í skýrslunni yfirlit yfir viðburði á vegum Félags sjálfstætt starfandi fræðimanna og AkureyrarAkademíunnar á tímanum 2006 til 2021.

Skýrslan sýnir að á liðnum 15 árum hafa tæplega 100 einstaklingar verið með vinnuaðstöðu hjá AkAk, flestir þeirra í námi við innlenda og erlenda háskóla og hinn hlutinn fjölbreyttur hópur vísinda-, fræði- og listamanna sem og frumkvöðla, og eru það tæplega 50 greinar eða fræðisvið sem akademónar hafa lagt stund á.

Á þessum tíma hefur AkAk staðið fyrir ríflega 150 viðburðum þar sem lögð hefur verið áhersla á að tengja saman ólíka hópa og að virkja almenning til þátttöku.

„Starfsemi AkAk hefur gefið háskólanemum og þeim sem vinna að fræði- og ritstörfum hér í bæ og víðar tækifæri til menntunar og sköpunar á heimaslóðum og þverfaglegt samfélag einstaklinga með fjölbreyttan bakgrunn hefur skapað frjótt samtal og umhverfi sem hefur auðgað mannlíf og menningarstarf hér á svæðinu,“ segir Aðalheiður.