Þar munu Edda Björgvinsdóttir og Gunnar Hersveinn meðal annars ræða samband húmors og hamingju og hvers vegna ástæða er til að efla húmor og gleði í lífinu.
Edda Björgvinsdóttir er leikkona og M.A. í mennta- og menningarstjórnun. Meistararitgerð Eddu fjallar um „Húmor í stjórnun“ og nýverið lauk hún diplómanámi í jákvæðri sálfræði frá HÍ. Edda hefur sl. 20 ár haldið ótalmörg námskeið og fyrirlestra hjá fyrirtækjum, félagasamtökum, hópum og opinberum stofnunum. Vinsælustu fyrirlestrar Eddu á vinnustöðum fjalla um húmor sem stjórntæki og gagnsemi hans í mannlegum samskiptum og til að auka starfsánægju.
Gunnar Hersveinn er rithöfundur og heimspekingur. Hann hefur tekið virkan þátt í samfélagsumræðunni til margra ára, haldið fyrirlestra og námskeið og skrifað bækur um gildi lífs og þjóðar. Þær heita Gæfuspor - gildin í lífinu, Orðspor - gildin í samfélaginu, Þjóðgildin og Hugskot - skamm-, fram- og víðsýni (2016) sem hann skrifaði með Friðbjörgu Ingimarsdóttur.
Nemendur Kvikmyndaskóla Íslands munu taka viðburðinn upp og verður hann gerður aðgengilegur á Youtube.
AkureyrarAkademían, í samstarfi við Skapandi sumarstörf í Rósenborg, mun opna sýningu nemenda í skapandi sumarstörfum en þeir hafa í sumar unnið að því að fanga hamingjuna eins og hún birtist þeim, með sköpunargleðina að leiðarljósi. Sýningin opnar kl. 13:00 laugardaginn 27. ágúst í Hlöðunni, Litla-Garði.
Viðburðurinn er öllum opinn meðan húsrúm leyfir og aðgangur er ókeypis.