Háskólinn á Akureyri og AkureyrarAkademían hafa endurnýjað samstarfssamning sín á milli. Samningurinn hefur það að markmiði að efla og styðja við samstarf og stuðla að sem bestri nýtingu sérfræðiþekkingar, kunnáttu, efniviðs og aðstöðu. Er þessu samstarfi ætlað að koma þekkingu á framfæri á einfaldan og aðgengilegan hátt og hvetja til samræðna um fræði og vísindi. Sjá samninginn hér.
Í framhaldi undirritunar samningsins var haldið Þekkingarþing í liðinni viku í húsnæði Háskólans á Akureyri þar sem fulltrúar frá háskólum, háskólasetrum og þekkingar- og fræðasetrum á Norður- og Austurlandi kynntu starfsemi sína og ræddu um mögulegt samstarf til framtíðar. Voru þar saman komin Háskólinn á Hólum, Samtök sveitarfélaga á Norðvestur- og Norðausturlandi, AkureyrarAkademían, Þekkingarnet Þingeyinga, Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Ströndum/Þjóðfræðistofa, Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Húsavík, Austurbrú á Egilsstöðum, Textílsetrið á Blönduósi og Háskólinn á Akureyri.
Var þar lögð áhersla á hvernig hægt væri að vinna saman, hvað væri sameiginlegt og hvað aðskildi á milli stofnana. Þá var hugað að næstu skrefum í mögulegu samstarfi. Sköpuðust lifandi, áhugaverðar og skemmtilegar samræður og verður spennandi að halda umræðunni áfram.