Húsnæðiskaupin marka tímamót fyrir stofnunina sem hefur nokkrum sinnum verið nálægt því að lognast út vegna húsnæðishrakninga en er nú komin í öruggt húsnæði.
AkureyrarAkademían var stofnuð árið 2006 og hefur alla tíð síðan verið vinnustaður háskólanema og sjálfstætt starfandi fræðimanna sem hafa leigt vinnuaðstöðu í lengri eða skemmri tíma. Afurðirnar sem hafa orðið til í akademíunni eru fjölmargar, s.s. bækur, fræðirit, doktorsritgerðir og meistaraverkefni. Það er gleðilegt að stofnunin sé komin í varanlegt framtíðarhúsnæði í Sunnuhlíð þar sem nemar og fræðimenn munu ótrauðir halda áfram að sinna sínum verkefnum. AkureyrarAkademían mun jafnframt halda áfram af enn meiri krafti að skapa brú á milli fræða og samfélags með fyrirlestrum, málþingum og námskeiðum.