Tíminn minn í AkureyrarAkdaemíunni

Sjáðu fyrir þér norðlenskan bæ í byrjun janúar. Það sést varla til sólar, húsin og garðarnir eru snjóklædd en nokkrar jólaseríur hanga ennþá sums staðar. Fólkið fer ekkert, nema það sé bráðnauðsynlegt, þannig að þú sérð engan í götunni.

Þannig var Akureyri í janúar 2017, þegar við fluttum í bæinn frá stórborginni Helsinki í Finnlandi. Maðurinn minn var búinn að fá vinnu í háskólanum. Ég kom með starf mitt, þar sem ég var nýdoktor í rannsóknarverkefni og gat unnið hvar sem var. Við áttum svo heima á Akureyri hátt í fimm ár. Ég var allan tímann með vinnuaðstöðu í AkureyrarAkademíunni, nema fyrsta mánuðinn.

En fyrsta mánuðinn reyndi ég að vinna heima við eldhúsborðið. Þetta hefur auðvitað verið hversdagslegur hlutur margra nú í kófinu, en þá var ég að mestu leyti vön að vinna á vinnustaðnum. Það gekk misvel og hvöt mín að vinna lækkaði hratt.

Eftir svona mánuð fékk ég að frétta um stað sem kallaðist AkureyrarAkademían. Ég vissi ekki alveg hvað þetta væri, en eftir smá umhugsun hringdi ég í verkefnastjórann, Kristínu Hebu Gísladóttur. Hún bauð mér í heimsókn að skoða húsnæðið. Andrúmsloftið virtist á sama tíma bæði faglegt og heimilislegt. Ég ákvað að taka skrifborð á leigu.

Ég fékk aðgang að skrifborði, stól, bókahillu og fleira, en síðast en ekki síst, aðgang að kaffistofunni. Þar fóru bæði margar og miklar umræður fram. Íslenskukunnáttan mín byrjaði snögglega að skána. Ég var með grunnfærni í íslensku þegar við fluttum til Íslands, en ekki vön að tala og mig vantaði orðaforða og tök á málfræði. Fyrst hlustaði ég aðallega, en fór smám saman að tala meira. Alltaf var skemmtilegt í hádegismatnum og margar sögur sagðar.

Ég mætti í AkureyrarAkademíuna á morgnana og fór heim seinni partinn, alveg eins og á venjulegum vinnustað. Þetta olli því að dagarnir mínir fengu rytma, og bætti í einu bæði vinnuafraksturinn minn og félagslíf mitt. Þetta var sérstaklega mikilvægt þegar við vorum nýflutt til Akureyrar, en allan tímann betrumbætti það tilveru mína þegar við áttum heima á Akureyri.

AkureyrarAkademían var til húsa á þremur mismunandi stöðum á þeim árum sem ég var þar. Síðasti staðurinn var verslunarmiðstöðin Sunnuhlíð, þar sem AkureyrarAkademían keypti húsnæði vorið 2020.

Þar sem við vorum ekki það mörg, gat ég líka unnið í Akademíunni í kófinu (en þegar það var sem verst vann ég heima). Frá árunum í AkureyrarAkademíunni man ég ekki bara vinnuna, heldur einnig hugguleg jólaboð og skemmtilegar sumarferðir eins og þegar núverandi verkefnastjóri AkureyrarAkademíunnar, Aðalheiður Steingrímsdóttir, var ferðastjóri okkar í Aðaldal í fyrra.

Mig langar að þakka öllum akademónum fyrir frábæran félagsskap, skemmtilegar umræður í kaffistofunni, faglega framkomu og vináttu. Án ykkar hefði dvöl mín fyrir norðan aldrei heppnast eins vel og raun bar vitni.

dr. Martina Huhtamäki er félagi í AkureyrarAkademíunni og lektor í norrænum málum við Háskólann í Helsinki.